Greiningardeild Glitnis metur gengi Vinnslustöðvarinnar á 4,7 krónur á hlut sem samsvarar því að verðmæti fyrirtækisins sé 7,1 milljarðar króna. Gengi félagsins á markaði er 4,6 krónur á hlut.

Markgengi til sex mánaða er 4,8 krónur á hlut en það er spá greiningardeildar um hvar gengi bréfa í félaginu standi að þeim tíma liðnum. Ráðlegging greiningardeildarinnar til fjárfesta er að halda bréfum í félaginu horft til lengri tíma.

"Ytri rekstraraðstæður fyrir útgerð og vinnslu hjá Vinnslustöðinni eru nú hagstæðar með háu afurðaverði í flestum afurðaflokkum. Auk þess er gert ráð fyrir lækkun á gengi krónunnar þegar líða fer á yfirstandandi ár. Rekstrarhorfur eru því nokkuð bjartar. Einn helsti styrkur Vinnslustöðvarinnar eru fjölbreyttar aflaheimildir og af þeim sökum nokkrar mismunandi vinnslutegundir, þetta fjölgar stoðum undir reksturinn," segir greiningardeildin.

Varanlegir rekstrarfjármunir og kvótaeign félagsins eru ekki metnir sérstaklega heldur er litið svo á að þær eignir séu undirstaða rekstursins, því er ekki eigið fé tekið með í verðmatinu.