*

sunnudagur, 7. mars 2021
Innlent 22. janúar 2021 13:28

Metur Haga 5% yfir markaðsvirði

Í nýju verðmati metur Jakobsson Capital gengi hlutabréfa Haga á 60,8 krónur á hlut, sem er 5% yfir gengi bréfanna í dag.

Sveinn Ólafur Melsted
Snorri Jakobsson, eigandi Jakobsson Capital.

Afkoma Haga á þriðja ársfjórðungi rekstrarársins 2020/21 var samkvæmt nýju verðmati greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital örlítið yfir væntingum. Verðmatsgengi greiningarfyrirtækisins er nú 60,8 en var 57,7 í síðustu greiningu fyrirtækisins. Er því um að ræða 5% hækkun á verðmatsgengi frá síðasta verðmati. 

Þegar þetta skrifað nemur gengi hlutabréfa Haga 57,6 krónum á hlut. Verðmatsgengið er því ríflega 5% hærra en gengi hlutabréfa félagsins nemur þessa stundina. Markaðsvirði Haga nemur tæplega 68,5 milljörðum króna en markaðsvirði verðmatsins nemur tæplega 72 milljörðum króna.  

„Fyrsta sem kom upp í hugann þegar að greinandi sá sölu Haga og hann fór yfir uppgjörið „helvítis unglingarnir eru að éta mig út á gaddinn“. Á tímum fjarkennslu og Covid gengur lífið út á lambahrygginn á sunnudögum og sjónvarpsdagskrána. Þægilegt en fitandi líf. Það kemur kannski ekki á óvart að þrátt fyrir fækkun ferðamanna hafa tekjur verslunar aukist um tæplega 11% á fyrstu þremur ársfjórðungum rekstrarársins 2020/21. Á móti hafa tekjur olíudreifingarfyrirtækisins Olís dregist saman um 21%,“ segir í verðmati Jakobsson Capital, sem eigandinn Snorri Jakobsson, skrifar.

Hagar vanmetið fyrir nokkrum árum síðan 

Í verðmatinu horfir Snorri yfir farinn veg en að hans mati voru Hagar, ásamt tryggingarfélögunum, eitt af þeim félögum Kauphallarinnar sem voru mjög vanmetin fyrir nokkrum árum síðan. „Stöðugleiki, einfaldleiki og lítil fjárbinding einkenndi rekstur Haga og var arðsemi bundins fjármagns um 20%.“ 

Hagar hafi því passað vel inn í þá „abstraktsýn eða kúbisma í fyrirtækjarekstri sem greinandi aðhyllist.“ 

„Verðmatsgengi var tæplega 60 og um 30% yfir gengi á markaði. Verðmatsgengið tók smá dýfu í kjölfar innkomu Costco og fór niður í tæplega 50 og var 50% yfir gengi á markaði. Verðmatsgengið fór svo aftur upp í tæplega 60 við kaupin á Olís en verðið virtist hagstætt og umtalsverð samlegð með Högum. Hins vegar fór að fjara undan eldsneytismarkaðnum fljótlega eftir kaupin í árslok 2018. Það hægðist um í ferðaþjónustu og innflutningur umhverfisvænna farartækja hófst fyrir alvöru. Auk þess sem sameiningar taka alltaf lengri tíma en til var vænst. Það fjaraði því heldur undan verðmatsgenginu,“ segir í verðmatinu.

Svo hafi Covid skollið á. „Áhrif Covid á innlenda verslun hafa verið jákvæð sem fæstir bjuggust við. Á móti hafa áhrifin á olíudreifingarfyrirtækin verið meiri en flestir bjuggust við. Fjölgun ferðamanna hafði umtalsverð áhrif á sölu bifreiðareldsneytis þar sem framlegðin er hæst. Þegar ferðamennirnir hurfu dróg mjög úr sölu bifreiðaeldsneytis.“