*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Erlent 16. ágúst 2017 15:54

Metútflutningur á skoskum eldislaxi

Útflutningur á skoskum laxi jókst um 70% á milli ára og náði methæðum á fyrsta helmingi ársins 2017.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Útflutningur á skoskum laxi jókst um 70% á milli ára og náði methæðum á fyrsta helmingi ársins 2017. Fluttur var úr landi lax að virði 346 milljón punda á fyrri árshelmingi. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Á öðrum ársfjórðungi var fluttur út lax að virði 190 milljón punda eða 29 þúsund tonn. Var þar með aukning um 10 þúsund tonn á milli ára. Bandaríkjamarkaður er stærsti útflutningsmarkaðurinn fyrir skoskan lax, en sá kínverski er næst stærstur. 

Skotar hafa þurft að glíma við vandamál tengd sjólús og hafa þurft að eyða allt að 30 milljónum punda á ári til þess að glíma við það vandamál. Þó virðist eftirspurn eftir skoskum laxi ekki fara þverrandi.

Laxar sluppu úr sjókví

Þrátt fyrir góða afkomu skoskra laxeldisfyrirtækja hefur eldið ekki gengið stórslysalaust fyrir sig. Í mars greindi skosta blaðið Daily Record frá því að um 20 þúsund eldislaxar hefðu sloppið úr sjókvíum Scottish Sea Farm við eyjuna Mull.  Í skoska blaðinu var sagt að þetta hefði verið eitt mesta umhverfisslys í sögu laxeldis í Skotlandi og það næst mesta síðan 30 þúsund laxar sluppu úr kvíum við eyjuna Lewis and Harris í maí í fyrra.

Scottish Sea Farm er í eigu norska félagsins Norskott Havbruk AS. Norski laxeldisrisinn SalMar ASA á 50% hluti í Norskott Havbruk og Lerøy Seafood Group á 50%.

Stikkorð: Skotland laxeldi Eldislax útflutningur