Viðskipti með markflokka skuldabréfa í dag, það er að segja ríkisbréf og íbúðabréf, námu alls 107,9 milljörðum króna. Þetta er metvelta á skuldabréfamarkaði og er um 50 milljörðum yfir fyrra veltumeti.

Í Vegvísi Landsbankans segir að veltan hafi verið 20 milljarðar króna þegar langt var liðið á dag. Undir lok dags voru síðan stór viðskipti í öllum flokkum, um 55 milljarðar með íbúðabréf og 27 milljarðar með ríkisbréf. „Ávöxtunarkrafa lækkaði á flestum flokkum skuldabréfa í dag, mest um 23 punkta á stystu íbúðabréfunum. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lá á bilinu 4,1% til 4,4% í lok dags," segir í Vegvísi.