Heildarvelta Ísfélags Vestmannaeyja var 3.965 milljónir króna á síðasta ári og hækkaði um 564 milljónir frá árinu á undan. Hagnaður fyrir afskriftir og vexti lækkaði úr 919 milljónum í 849 milljónir og var 21,4% af veltu ársins.

Hækkun tekna félagsins skýrist af meiri framleiðslu í fiskmjölsverksmiðjum félagsins og aukinni vinnslu á síld og loðnu til manneldis. Lækkun á framlegð þrátt fyrir meiri veltu og mun meiri umsvif skýrist fyrst og fremst af háu gengi íslensku krónunnar á síðasta ári.

Aðalfundur Ísfélags Vestmannaeyja hf. fyrir árið 2005 var haldinn í gær. Hagnaður Ísfélagsins á árinu 2005 var 1.261 milljónir en þar af var hagnaður af aðalstarfsemi 652 milljónir samanborið við 635 milljónir árið áður.

Rekstur Ísfélags Vestmannaeyja hf. gekk ágætlega fyrstu þrjá mánuði ársins 2006 en félagið byggir afkomu sína að langstærstum hluta á veiðum og vinnslu á loðnu og síld að því er kemur fram í frétt félagsins. Horfur í rekstri félagsins á árinu eru ágætar þar sem verð á afurðum félagsins er hagstætt í erlendum myntum og veiking krónunnar bætir rekstrarskilyrði þess.

Á ársgrunni störfuðu 210 starfsmenn hjá félaginu á starfsárinu og námu launagreiðslur til þeirra kr 1.259 milljónir.

Þann 1. desember n.k. verður Ísfélagið 105 ára og er í dag elsta starfandi hlutafélag landsins.

Stjórn félagsins var endurkjörin á aðalfundinum en hana skipa: Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson formaður, Þórarinn S. Sigurðsson, Guðbjörg Matthíasdóttir og varamenn Eyjólfur Martinsson og Ágúst Bergsson.