Metviðskipti voru á gjaldeyrismarkaði í gær og nam veltan 88,2 milljörðum króna, að því er segir í Vegvísi Landsbankans [ LAIS ]. Krónan veiktist um 1,2% og endaði vísitala krónunnar í 135,1 stigi. Töluverðar sveiflur voru innan dagsins. Um hádegi var gengisvísitalan komin í 137,4 stig, en veikingin gekk til baka eftir því sem líða tók á daginn. Í vikunni veiktist krónan um 3,3%. Þar af um 2,9% á fimmtudag og föstudag. Frá ársbyrjun hefur krónan veikst um 12,6%.

Mikil sveifla

Í Vegvísi segir ennfremur að auk þess sem metvelta hafi verið á gjaldeyrismarkaði hafi sveifla krónunnar innan dags verið sú mesta síðan 21. apríl 2006 en þá hafi krónan styrkst um 2,2% eftir margra daga samfelldar lækkanir. Þann dag hafi gengisvísitalan farið í 138 stig á tímabili en lækkað niður í 132,6 stig fyrir lokun markaða sem sé 4% styrking innan dagsins.

Erfitt að skipta erlendum gjaldeyri fyrir krónur

„Vextir á krónur í gjaldeyrisskiptum hafa lækkað verulega undanfarna daga og í dag jafngiltu dagsvextir um 6,7% ávöxtun á meðan að dagvextir á innlendum millibankamarkaði eru í takt við stýrivexti Seðlabankans (13,75%). Þetta endurspeglar óhagstæð kjör á erlendum fjármálamörkuðum sem gerir erfitt fyrir íslenska banka að skipta erlendum gjaldeyri fyrir krónur eins og stendur,“ segir í Vegvísi.