*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 14. apríl 2018 11:09

Metvöxtur í veltu

Nox Medical velti tæplega 2 milljörðum í fyrra. Vöxtur fyrirtækisins hefur eingöngu verið fjármagnaður með rekstrartekjum.

Snorri Páll Gunnarsson
Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, segir fyrirtækið hafa flogið úr hreiðri nýsköpunarstuðnings í kringum árið 2013. Í dag er það orðið leiðandi á sínu sviði á heimsvísu.
Haraldur Guðjónsson

Metvöxtur var í veltu svefnrannsóknarfyrirtækisins Nox Medical á síðasta ári í krónum talið. Veltan jókst um rúmlega 40% í tæpa tvo milljarða króna. Fyrirtækið áætlar að moka tíunda milljarðinum í gjaldeyristekjur inn í þjóðarbúið í ár.

Nox Medical er leiðandi há­tæknifyrirtæki á heimsvísu í þróun og framleiðslu á búnaði til greiningar á svefni og svefntruflunum. Markmið þess er að bæta heilsu fólks með því að gera greiningar á svefni einfaldari, skilvirkari og þægilegri fyrir börn og fullorðna.

Fyrirtækið var stofnað árið 2006 af sjö verkfræðingum og heilbrigðisvísindafólki sem áður störfuðu hjá Flögu, sem þá var verið að flytja úr landi. Markmiðið var að þróa og betrumbæta svefnrannsóknarlausnir Flögu. Fyrsta vara Nox Medical – Nox T-3, sem notað er til að greina öndunartengdar svefntruflanir, einkum í heimahúsum – kom á markað árið 2009. Síðan þá hefur  fyrirtækið skilað hagnaði á ári hverju og náð aukinni markaðshlutdeild í samkeppni við fyrirtæki á borð við Philips. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 50 talsins.

Vöxtur Nox Medical hefur eingöngu verið fjármagnaður með tekjustreymi. Félagið hefur aldrei tekið bankalán og á því hvíla engar vaxtaberandi skuldir. Fyrirtækið er í eigu stofnenda þess, framkvæmdastjórans, athafnamanna og Arc Ventures.

70% meðalvöxtur á ári

Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, segir veltuaukninguna skýrast af nokkrum þáttum, svo sem aukinni eftirspurn í Bandaríkjunum, breikkuðu vöruframboði og vitundarvakningu hvað varðar svefn og heilsu.

„Nox T-3 hefur náð fótfestu í Evrópu, þar sem meirihluti svefnmælinga fer fram í heimahúsum. Í Bandaríkjunum hefur orðið bylting á síðustu árum þar sem svefnmælingar í heimahúsum, sem áður voru fáheyrðar, hafa rutt sér til rúms og orðnar mun algengari. Salan á Nox T-3 hefur því aukist mikið á Bandaríkjamarkaði,“ segir Pétur. 

Í Bandaríkjunum hefur Nox Medical einnig átt í samstarfi við Veterans Health Administration undanfarin sex ár. Það er langstærsta heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna, þjónustar bandaríska uppgjafahermenn og telur tugi milljóna einstaklinga og yfir 170 sjúkrahús. Kerfið nýtir svefngreiningartæki Nox Medical í vaxandi mæli. Þá er Nox Medical stór hluthafi í Fusion Health í Bandaríkjunum, sem þjónustar stórfyrirtæki með jafnvel hundruð þúsunda starfsmanna með því að nota hugbúnað Nox Medical til að greina svefnröskun starfsmanna.

„Þetta gera fyrirtækin af því að þau vita að starfsmaður sem er úthvíldur og býr ekki við undirliggjandi svefnvandamál er líklegri til að hámarka afköst og lækka útgjöld tengd heilbrigði og læknisþjónustu,“ segir Pétur.

Nox Medical hefur einnig breikkað vöruframboð sitt, sérstaklega með vöruþróun á Nox A1. Það er lítið, nánast víralaust tæki sem fer á brjóst sjúklingsins og streymir gögnum um starfsemi heilans og taugakerfisins þráð­ laust yfir á móttökustöð í hærri upplausn en áður. „Þetta tæki er farið að spila stærri rullu í tekjumyndun okkar,“ segir Pétur.

Á síðustu sex árum hefur meðalvöxturinn í veltu Nox Medical numið yfir 70% á ári. Félagið sér fram á tugprósenta vöxt í sölu á ári á næstu árum, ekki síst vegna þeirrar vitundarvakningar sem átt hefur sér stað varðandi mikilvægi svefns fyrir heilsuna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.