Erfitt er að meta gæði eignasafns Sparisjóðsbankans og Erling Tómasson, löggiltur endurskoðandi, og formaður skilanefndar bankans sagðist lítið geta sagt til um það á þessari stundu þó nokkrir fundir hafi verið haldnir með kröfuhöfum. Komið hefur fram að bankinn hefur leyst til sín A4 ritfangasalan og rekur félagið um þessar mundir. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins námu lánveitingar til félagsins á milli 500 og 600 milljónum króna sem verður að teljast mjög vel í lagt miðað við stærð félagsins.

Bankinn hafði mikið komið að fasteignaverkefnum og hefur þegar verið nokkur umræða um lánveitingar hans til hótelkaupa á Miami Beach á Flórída í Bandaríkjunum. Segja má að fasteignaverkefnin hafi komið til þar sem hann hafði ekki grunn sem viðskiptabanki. Þá var orðið ljóst að hann lifði ekki á að þjónusta sparisjóðina. Að sögn Agnars Hanssonar, fyrrverandi forstjóra bankans, var það meðvituð ákvörðun að færa bankann í áhættumeiri verkefni en til dæmis þau sem sparisjóðirnir stunduðu.

Þegar Sparisjóðsbankinn féll voru erlendar skuldir hans um 500 milljónir evra. Eignir bankans samkvæmt sex mánaða uppgjöri námu um 300 milljörðum króna sem skiptust þannig lán til sparisjóða og annarra innlendra aðila voru 50 milljarða króna, enduhverfu lánin um 150 milljörðum króna og að aðrar eignir voru 100 milljarðar.