Hægari gangur bandaríska hagkerfisins hefur skilað sér í minna magni peningasendinga yfir landamærin til Mexíkó. Dollarasendingar frá Bandaríkjunum til nágrannalandsins í suðri minnkuðu um 12% í ágúst. Þetta kemur fram í nýjum opinberum tölum.

Peningasendingar frá Bandaríkjunum til Mexíkó er næststærsti liður löglega aflaðs gjaldeyris í landinu, á eftir olíuútflutningi. Meira en 20% brottfluttra Mexíkana vinna í byggingageiranum í Bandaríkjunum, en sá geiri atvinnulífsins er á miklu undanhaldi núna sökum lækkunar á eignamörkuðum.

Um 98% allra brottfluttra Mexíkana búa í Bandaríkjunum. Fyrstu átta mánuði ársins sendi þessi hópur um 15,5 milljarða dollara til heimalandsins, sem er 4% samdráttur frá því í fyrra. Óhagfelld þróun dollarans á gjaldeyrismörkuðum hefur einnig haft sitt að segja, en fjöldi mexíkanskra fjölskyldna á talsvert undir því að fá peningasendingar úr norðri frá ættingjum sínum.

Auk veikara hagkerfis en áður, hafa Bandaríkjamenn hert landamæraeftirlit.