Mexíkóski auðmaðurinn Carlos Slim hefur bætt og jafnt og þétt við eign sína í bandarísku munúðarvöruversluninni Saks í gegnum fjárfestingafélag sitt Inmobiliaria. Samkvæmt frétt Wall Street Journal ræður Slim nú yfir 10,8% og er hann næst stærsti hluthafi félagsins. Slim keypti á dögunum 150.000 bréf á meðalgenginu 9,37 Bandaríkjadali en hafði keypt tæp milljón hlutabréf í síðustu viku á meðalgenginu 9,64 dali.

Samanlagt á Slim 15,5 milljónir hlutabréfa í Saks og markaðsvirði hlutarins 149,3 milljónir dala, miðað við lokagengi mánudags. Sem kunnugt er hefur verið uppi orðrómur um að fjárfestingafélagið Baugur hafi áhuga á Saks og kemur fram í frétt Wall Street Journal að félagið hafi rétt á kaupum á 12,2 milljónum hluta í gegnum framvirka samninga. Samkvæmt blaðinu vildu talsmenn Baugs ekki tjá sig um málið.

Carlos Slim er einn ríkasti maður veraldar. Í fyrra voru eignir hans metnar upp á 50 milljarða dala og jafngildir það 6,3% af landsframleiðslu Mexíkó. Carlos Slim keypti í byrjun tíunda áratugar nýliðinnar aldar símafyrirtækið Telmex í kjölfar einkavæðingar ríkisstjórnarinnar. Á þeim grunni hefur hann byggt upp viðskiptaveldi sem meðal annars samanstendur af stærsta símafyrirtæki Rómönsku Ameríku, bönkum, tryggingastarfsemi, smásölu, veitingastöðum og þjónustu við olíuiðnaðinn