Breska leyniþjónustan, MI6, gerði á árum áður tilraunir til þess að nota karlmannssæði til að skrifa niður hernaðarleyndamál.

Frá þessu er greint á vef breska blaðsins Telegraph í dag en sæðið átti að nota sem ósýnilegt blek.

Samkvæmt dagbókum Walter Kirke, fyrrum hátt setts leyniþjónustumanns, frá árinu 1915 kemur fram að í fyrri heimsstyrjöldinni hafi menn áttað sig á því að hægt væri að nota sæði sem ósýnilegt blek.

Niðurstaðan kom í kjölfar tilrauna með þetta sem gerðar voru í Lundúnarháskóla. Þar hafi verið gerðar tilraunir með ósýnilegt blek og niðurstaðan hafi orðið sú að sæði væri best til þess fallið. Þá hefur Kirke eftir nánum samstarfsmanni sínum að hann muni aldrei gleyma svipnum á yfirmönnum sínum þegar þessi uppgötvun var gerð. Þannig hélt samstarfsmaðurinn að MI6 væri þarna búið að leysa stórt vandamál.

Það varð þó ekki alveg raunin því uppgötvunin leiddi af sér ný vandamál. Vandamálið fólst fyrst og fremst í því að mikið grín var gert að þessari hugmynd og fór svo að lokum að samstarfsmaður Kirke þurfti að láta færa sig til í starfi þar sem hann þoldi ekki stríðnina vegna þessa. Þá þurfti að benda öðrum leyniþjónustumanni á að nota aðeins ferskt „blek“ þegar móttakendur bréfanna fóru að kvarta undan því hversu illa lyktandi bréfin voru.

Allt þetta kemur fram í nýrri bók Keith Jeffery, prófessor við Queen háskóla í Belfast. Bókin heitir MI6: The History of the Secret Intelligence Service 1909-1949.