Samkeppniseftirlitið hefur gert Miðbæjarhótelum ehf. að greiða 150 þúsund króna sekt á dag þangað til félagið hefur skilað umbeðnum gögnum í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á meintum brotum á samkeppnislögum í ferðaiðnaði. Miðbæjarhótel ehf. rekur m.a. Hótel Klöpp, Hótel Skjaldbreið, Hótel Plaza, Hótel Arnarhvoll og Hótel Þingholt.

Forsaga málsins er sú að í mars í fyrra gerði Samkeppniseftirlitið húsleit hjá Samtökum ferðaþjónustunnar vegna meintra brota samtakanna á  samkeppnislögum á ýmsum undirmörkuðum ferðaþjónustumarkaðar. Í framhaldi af vinnslu þeirra upplýsinga sem aflað var í húsleitinni aflaði Samkeppniseftirlitið frekari gagna frá fjölmörgum aðilum á ferðaþjónustumarkaði, þ.á m. vegna meints samráðs á hótelmarkaði í andstöðu við lög. Miðbæjarhótel ehf. var einn þeirra aðila er Samkeppniseftirlitið óskaði eftir gagna frá. Misbrestur hefur hins vegar orðið á skilum og er nú þolinmæði stofnunarinnar á þrotum.

Hefur vanrækt ótvíræða lagaskyldu

„Þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi ítrekað óskað eftir tilteknum gögnum frá hótelinu hefur eftirlitinu enn ekki borist svar við gagnabeiðninni. Með því hefur Miðbæjarhótel ehf. vanrækt ótvíræða lagaskyldu um afhendingu gagna og upplýsinga á grundvelli 19. gr. samkeppnislaga. Af þessum sökum og með heimild í 38. gr. samkeppnislaga hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að leggja dagsektir á Miðbæjarhótel ehf. Er fyrirtækinu gert að greiða 150.000 kr. á dag þar til gagna- og upplýsingabeiðni Samkeppniseftirlitsins hefur verið svarað með fullnægjandi hætti,” segir í ákvörðun eftirlitsins.