Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Miðbæjarhótela, segir að hótelkeðjan hafi þegar skilað umbeðnum gögnum til Samkeppniseftirlitsins. Dagsektir verði því ekki, segir hann, lagðar á hótelin eins og eftirlitið hafi hótað. Þetta kemur fram í skriflegri athugasemd hans til Viðskiptablaðsins vegna fréttar vb.is um málið í gær.

Í fréttinni var vísað í þá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 31. júlí sl. um að Miðbæjarhótel þurfi að greiða 150 þúsund króna sekt á dag þar til þau svari gagna- og upplýsingabeiðni eftirlitsins með fullnægjandi hætti. Gagnaöflun eftirlitsins er liður í rannsókn á meintu ólögmætu samráði á hótelmarkaði.

Kristófer tekur fram í athugasemd sinni til Viðskiptablaðsins að Miðbæjarhótel hafi ekki tekið þátt í ólögmætu samráði af neinu tagi. Hann segir jafnframt að líklega búi engin atvinnugrein við virkari samkeppni en hótelgeirinn.

Hvorki náðist í Kristófer né Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlisins, við vinnslu þessarar fréttar en svo virðist sem þessir aðilar séu ekki sammála um það hvort gögnum hafi verið skilað með fullnægjandi hætti eður ei.