Demókratar unnu í gær lykilkosningar í New York borg og Virginíuríki, að því er BBC fréttastofan greinir frá.

Bill de Blasio mun taka við borgarstjórastólnum af Michael Bloomberg. De Blasio verður fyrsti demókratinn til þess að gegna embætti borgarstjóra í New York frá árinu 1993.

Terry McAuliffe hafði betur gegn repúblikananum Ken Cuccinelli í baráttunni um ríkisstjóraembætti í Virginíu. Repúblikaninn Chris Christie vann hins vegar auðveldlega ríkisstjórakosningar í New Jersey.

Þetta eru fyrstu kosningarnar sem fara fram í Bandaríkjunum frá því að Obama var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna í fyrra. Þær eru því álitinn mælikvarði á styrk flokkanna tveggja fyrir kosningar til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem fram fara á næsta ári.