Michael Jordan ásamt Mark Cuban og Ted Leonsis hafa fjárfest í gagnasöfnunar- og tölfræðifyrirtækinu Sportradar.

Þríeykið er að veðja á að innan skamms verði löglegt að tippa og veðja á íþróttaleiki í Bandaríkjunum, en eins og stendur er það ólöglegt í 46 ríkjum.

Heildarfjárfestingin hljóðar upp á rúmar 44 milljónir dala eða 5,5 milljarða íslenskra króna. Í forystu er fjárfestingarfyrirtækið Revolution Growth, en það er í eigu Ted Leonsis. Leonsis er einnig eigandi NBA liðsins Washington Wizards og NHL liðsins Washington Capitals.

Það er skoðun fjárfestanna að von bráðar verði löglegt að veðja á íþróttaleiki í Bandaríkjunum, og þá muni Sportradar sem er víða notað af veðbókurum vaxa fiskur um hrygg í Bandaríkjunum.