Tískufyrirtækið Michael Kors hagnaðist um 125,5 milljónir dollara á öðrum ársfjórðungi þessa árs eða því sem nemur 80 sentum á hlut. Dróst hagnaður saman um 15% á milli ára en þrátt fyrir það fór afkoman fram úr væntingum greiningaraðila sem höfðu gert ráð fyrir að hagnaður næmi 62 sentum á hlut. Reuters greinir frá.

Frá því að Michael Kors birti uppgjör sitt hefur gengi hlutabréfa félagsins hækkað um 16,71% á eftirmarkaði.

Tekjur félagsins á tímabilinu námu 952,4 milljónum dollara og drógust saman um 3,6% en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir að tekjur myndu nema 918,6 milljónum. Þá greindi fyrirtækið einnig frá því að kaup þess á skóframleiðandanum Jimmy Choo myndu auka tekjur um 275 milljónir dollara á seinni helmingi reikningsársins sem nær til loka mars 2018.

Micahel Kors hefur verið í töluverðum vandræðum á síðustu misserum. Í lok maí greindi fyrirtækið frá því að það hygðist loka yfir 100 verslunum til þess að hagræða í rekstri eftir að vörusala hafði dregist saman sjö ársfjórðunga í röð. Var nýliðin ársfjórðungur því sá áttundi í röðinni þar sem sala dróst saman.