Tískufyrirtækið Michael Kors hyggst loka yfir 100 verslunum á næstu tveimur árum. Fréttirnar koma í kjölfarið á tilkynningu fyrirtækisins um að vörusala hefði dregist saman um 14,1% á síðasta ársfjórðungi. Þetta er verri niðurstaða en greiningaraðilar hefðu gert ráð fyrir. Þetta kemur fram í frétt Reuters .

Gegni hlutabréfa fyrirtækisins hefur lækkað um tæp 10% í dag eftir að yfirlýsingin um samdrátt í vörusölu kom út. Hefur gengi bréfa félagsins ekki verið lægra í fimm ár.

Fyrirtækið hefur gengið í gegn um erfiða tíma á síðustu misserum en vörusala hefur nú dregist saman á sjö ársfjórðungum í röð. Lokanir á verslunum fyrirtækisins eru liður í hagræðingaraðgerðum til að gera fyrirtækið samkeppnishæfara í harðri verðsamkeppni við aðra tískuvöruframleiðendur. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að lokanirnar muni skila um 60 milljónum dollara í hagræðingu á ári.