Michael Rake, einn stjórnarmanna Barclays, útilokar að hann muni taka við sem stjórnarformaður bankans. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC í dag.

Rake hefur verið talinn líklegasti arftaki Marcus Agius. Sá lét af störfum á dögunum í kjölfar hins svokallaða Libor-hneykslis þar sem stjórnendur bankans eru grunaðir um að hafa haft áhrif á stýrivexti með ólögmætum hætti. Töluverður þrýstingur hefur verið á forsvarsmenn bankans að finna utanaðkomandi aðila, frekar en núverandi stjórnarmeðlimi, til að taka við stjórn bankans. Margir stærstu hluthafa bankans létu til að mynda heyra í sér varðandi þetta.

Það var flugfélagið Easyjet sem tilkynnti um þessa ákvörðun Rake. Hann er stjórnarformaður bæði Easyjet og BT Group og hefði þurft að segja báðum stöðum lausum hefði hann tekið við stjórn Barclays.

Margir bíða nú spenntir eftir að sjá hverjir það eru sem sækjast eftir stöðu stjórnarformanns Barclays. Þá er einnig leitað eftirmanns framkvæmdastjórans Bob Diamond sem líka neyddist til að segja af sér vegna Libor-hneykslisins.