Michael Rake, varaformaður stjórnar Barclays bankans, hefur sagt starfi sínu lausu hjá bankanum. BBC News greinir frá þessu.

Nokkrar deilur hafa verið milli æðstu stjórnenda bankans að undanförnu en tíðindin berast aðeins einni viku eftir að Antony Jenkins, forstjóri bankans, var rekinn eftir að hafa tekist á við stjórn fyrirtækisins um kostnaðaraðhald. Vildu stjórnarmenn bankans ganga lengra en forstjórinn í niðurskurði í rekstrinum.

Rake hefur setið í stjórn bankans frá árinu 2008 og er ekki útilokað að uppsögn hans tengist brottvikningu Jenkins. Rake mun taka við starfi hjá greiðslumiðlunarfyrirtækinu Worldpay og hefur störf í september næstkomandi.