Michael Porter, prófessor við viðskiptafræðideild Harvardháskóla, er einn afkastamesti og virtasti fræðimaður heims á sviði samkeppnishæfni. Hann er nú væntanlegur til Íslands og mun flytja erindi á ráðstefnu um jarðvarmann á Íslandi og skýra frá niðurstöðum rannsókna sinna og samstarfsmanna hans hér á landi og erlendis. Hákon Gunnarsson rekstrarhagfræðingur hefur haft veg og vanda að verkefninu hér á landi ásamt KPMG. Ráðstefnan fer fram á morgun í Háskólabíói.

Sagði íslenska hagkerfið hafa einkenni ,,ofhitnunar"

Porter kom til Íslands fyrir fjórum árum, í október 2006, og flutti þá erindi á ráðstefnu sem fram fór á Hilton Hótel Nordica. Hann fjallaði stuttlega um stöðu mála á Íslandi en einblíndi á samkeppnishæfni og hvernig þjóðir og fyrirtæki gætu fundið leiðina að árangri. Í erindi sínu árið 2006 sagði hann meðal annars, er hann sýndi línurit sem sýndi raunverulega framleiðni í samanburði við laun og fjárfestingu: „Hér eruð þið komin útaf sporinu [...] að hluta til er það vegna ofhitnunar [hagkerfisins]. Hér þarf að fara varlega og bregðast við. Hagsældin á Íslandi er töluvert umfram það sem framleiðni efnahagskerfisins getur borið.“ Þéttskipaður salur af fólki (stjórnendum fyrirtækja og stjórnmálamönnum ekki síst) virtist ekki taka þessi varúðarorð Porters til sín. Fordæmalaus eignabóla hélt í það minnsta áfram að vaxa á Íslandi allt þar til hún sprakk með látum í október 2008.

Samkeppnishæfni ofar öllu

Porter útskrifaðist sem verkfræðingur frá Princeton 1967. Þaðan fór hann til Harvard og útskrifaðist þaðan með MBA og doktorspróf í viðskipta- og hagfræði 1973. Frá þeim tíma hefur hann sinnt fjölþættum verkefnum á sviði ráðgjafar, ekki síst fyrir þjóðir og stór fyrirtæki. Hann er almennt álitinn áhrifamesti fræðimaður heims á sviði viðskiptafræði, einkum samkeppnishæfni og stefnumörkun. Megináhersla hans í fræðigreinum og bókaskrifum hefur verið á samkeppnishæfni og framleiðni. Í bókum sínum hefur hann með misjafnlegum hætti reynt að gera það sem fólk í íslensku atvinnu- og stjórnmálalífi kvartar oft sáran yfir því að aldrei sé einblínt á. Það er að horfa fram á við og marka stefnu sem eykur framleiðni og bætir árangur. Ekki til skamms tíma heldur til framtíðar. Bók hans Competitve Strategy, sem kom fyrst út árið 1980, er frægust af öllum bókum hans. Hún er grundvallarrit í viðskiptafræðideildum í háskólum um allan heim. Hún er nú í 64. endurútgáfu.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér . Sérstaklega er fjallað um Porter í sérblaði um orkumál og iðnað sem fylgdi blaðinu sl. fimmtudag.