Bann við að senda textaskilaboð í farsíma tekur gildi í Michigan ríki í Bandaríkjunum í dag. Sett hafa verið upp áróðursskilti og ökumenn áminntir um bannið í útsendingum sjónvarpsstöðva. Lögreglumenn eru hins vegar áhyggjufullir þar sem þeir sjá ekki alveg hvernig þeir eigi að framfylgja lögunum.

Lögin bera óneitanlega keim af pólitískri auglýsingamennsku. Þannig undirritaði Jennifer Grandholm ríkisstjóri nýju lögin í útsendingu í sjóvarpsþætti Oprah Winfrey í apríl. Stuðningsmenn telja þó að bannið eigi eftir að bjarga mannslífum.

The Detroit News greinir frá ýmsum efasemdum varðandi bannið. Þannig er haft eftir Bill Dwyer lögreglustjóra í Warren að hann reikni með að sektarmiðar eigi eftir að koma til kasta dómsstóla. Hann hefur lagt að sínum lögreglumönnum að gefa ekki út sektarmiða nema þeir sé algjörlega vissir um að geta staðið við sitt mál þannig að það standist skoðun dómara. Hann leggur t.d. að sínum mönnum að beita ekki sektum ef þeir sjá fólk senda textaboð þegar það stoppar á umferðaljósum. Á meðan þeir séu kyrrstæðir við að senda textaboð séu þeir ekki að brjóta lög. Þá geti reynst erfitt að sanna að viðkomandi ökumaður hafi verið að senda textaboð þó svo að hann sé með farsíma í hendinni.

„Ef þú horfir á þetta í samanburði við bílbeltalögin, þá verður að mínu mati talsvert erfiðara að framfylgja þessum lögum,” segir Dwyer.

Mark Hackel lögreglustjóri í Macomb sýslu  segir að lögreglumönnum sé gert að taka afstöðu til þess hvort ökumenn hafi verið að senda textaskeyti eða að hringja sem ekki er bannað. „Þú getur sem lögreglumaður beðið ökumann um að afhenda þér símann, en hann þarf samt ekki að láta hann af hendi. Það er ekkert í lögunum sem heimilar lögreglumanni að gefa skipunina: „Afhentu mér símann þinn!”