*

laugardagur, 23. október 2021
Erlent 14. júlí 2021 08:20

Microsoft að kaupa netöryggisfyrirtæki

Microsoft hefur náð samkomulagi um kaup á netöryggisfyrirtækinu RiskIQ en kaupverðið er talið vera yfir 62 milljörðum króna.

Ritstjórn
Satya Nadella, forstjóri Microsoft
epa

Microsoft hyggst kaupa netöryggisfyrirtækið RiskIQ til að auka vöruúrval sitt og til að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á aukna vernd gegn netglæpum. 

Netrisinn gaf ekki upp kaupverðið í tilkynningunni en samkvæmt heimildum Bloomberg mun Microsoft greiða meira en 500 milljónir dala, eða yfir 62 milljarða króna, í reiðufé. 

RiskIQ, sem er með höfuðstöðvar í San Francisco, þróar hugbúnað sem leitar uppi öryggisógnir og hjálpar viðskiptavinum að skilja hvar og hvernig hægt er að ráðast á flókin netkerfi fyrirtækja. Meðal viðskiptavina félagsins eru Facebook, BMW og American Express. RiskIQ var stofnað árið 2009 og hefur síðan þá safnað 83 milljónum dala í fjármögnun. 

Microsoft hefur keypt nokkur önnur fyrirtæki að undanförnu til að bæta öryggisþjónustu sína. Í síðasta mánuði keypti fyrirtækið ReFirm Labs, sem sérhæfir sig í öryggislausnum fyrir hlutanet (e. Internet of things). Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp. 

Stikkorð: Microsoft RiskIQ ReFirm Labs