Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft átti í viðræðum við eigendur finnska símaframleiðandann Nokia um möguleg kaup á síðarnefnda félaginu en upp úr þeim viðræðum slitnaði nýlega.

Frá þessu var greint í bandaríska viðskiptablaðinu Wall Street Journal í gær. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að stjórnir fyrirtækjanna hefðu átt í miklum viðræðum sem runnið hefðu út í sandinn fyrr í þessum mánuði.

Löngu hefur verið vitað af áhuga Microsoft um að ná fótfestur á farsímamarkaði og keppa þannig við Android síma Google og ekki síst við iPhone síma Apple. Nokia hefur í raun átt í miklum vandræðum eftir harða samkeppni við Apple og ekki síður snjallsíma Samsung þó svo að finnska félagið hafi náð vopnum sínum að hluta til með Lumia símunum, sem keyrðir eru á stýrikerfi frá Microsoft.

Í framhaldi af því samstarfi sínu hófust óformlegar viðræður um kaup Microsoft á Nokia og þær viðræður tóku á sig formlegri myndi í vor – þó án árangurs.