Microsoft reynir nú að sannfæra starfsmenn sína um að þeim verði fundin ný störf innan fyrirtækisins, verði þeir óþarfir eftir að samruni við Yahoo er genginn í gegn. Þær vörur sem fyrirtækin tvö framleiða eru að ákveðnu leyti svipaðar, þannig að einhvers staðar innan nýrrar samstæðu má reikna með að of margir séu um ákveðin verkefni. Bloomberg greinir frá þessu.

Kevin Johnson, sem er yfir þeirri deild innan Microsoft sem sér um Windows og veraldarvefinn, segir að mannauður sé mikilvægasta auðlind fyrirtæksins og honum verði ekki sóað. Þetta kom fram í bréfi hans til allra starfsmanna í gær.

Ástæða bréfsins er sú að sá orðrómur hafði heyrst að Microsoft hygði á uppsagnir í kjölfar samruna við Yahoo. Síðarnefnda fyrirtækið hefur þegar lofað að greiða þeim starfsmönnum sem vinna fyrir fyrirtækið skaðabætur ef þeir missa starfið í kjölfar samrunans.

Johnson sagði við þetta tilefni að Microsoft væri fyrirtæki í stöðugum vexti, og hefði meðal annars ráðið 20.000 manns til starfa frá árinu 2005. Því væri engra uppsagna að vænta.