Bandaríski tölvurisinn Microsoft hefur boðið því sem samsvarar 2.872 milljörðum króna í netfyrirtækið Yahoo, að því er kemur fram í frétt Associated Press.

Tilboðið, sem kom markaðsaðilum nokkuð á óvart, hljóðar upp á 31 Bandaríkjadal á hlut. Yahoo hefur mátt muna fífil sinn fegurri, en gengi bréfa Yahoo náðu fjögurra ára lágmarki í vikunni og hefur hagnaður þess dregist saman um nokkurt skeið.

Google leitarvélin hefur jafnt og þétt verið að skapa sér stöðu sem leiðandi internetleitarvél og þar af leiðandi hrifsað til sín mestar auglýsingatekjurnar. Með tilboðinu er talið að Microsoft sé að reyna að tryggja sér stöðu á þeim markaði.