Microsoft hefur dregið boð sitt í Yahoo til baka, en samkvæmt frétt Reuters náðust samningar ekki, jafnvel eftir að Microsoft hækkaði tilboð sitt um 5 milljarða Bandaríkjadala.

Steve Ballmer, forstjóri Microsoft, sagði að félagið hefði boðið Yahoo 33 dali á hlut, en Yahoo vildi fá 37 dali á hlut.

„Þrátt fyrir að við höfum gert okkar besta, þar á meðal hækkað tilboð okkar, hefur Yahoo ekki viljað semja við okkur um yfirtöku. Að vandlega athuguðu máli teljum við ekki skynsamlegt að mæta kröfum Yahoo og að það sé hluthöfum, starfsmönnum og öðrum sem hafa hagsmuna að gæta fyrir bestu að við drögum tilboð okkar til baka“ sagði Ballmer.

Greiningaraðili sem Reuters ræðir við í frétt sinni um málið segir að búast megi við fjölda lögsókna frá hluthöfum Yahoo á næstunni, þar sem stjórn félagsins hafi sett hagsmuni starfsmanna félagsins í forgang og þar með hafi hluthafar hugsanlega misst af töluverðum fjárhæðum.