Stjórnendur tölvuframleiðandans Microsoft eru í viðræðum við fjárfesta um fjármögnun kaupa á netfyrirtækinu Yahoo. Viðræðurnar eru á forstigi og að sögn heimildarmanna Reuters um málið vill Microsoft framar öllu viðhalda góðu viðskiptasambandi félaganna en fyrirtækin hafa um nokkurra ára bil haft þjónustusamning sín á milli.

Að sögn heimildarmanns Reuters voru það eignastýringarfyrirtæki sem hafa áhuga á Yahoo sem nálguðust Microsoft en talsmenn tölvuframleiðandans hafa neitað að tjá sig um málið.

Yahoo hefur átt erfitt um vik í samkeppni við fyrirtæki á borð við Google og Facebook um auglýsingasölu á netinu og hafa verið að leita kaupenda á grunnþjónustum þess.

Þetta yrði ekki í fyrsta skiptið sem Microsoft leitar leiða til að fjárfesta í Yahoo. Árið 2008 reyni Steve Ballmer, þáverandi forstjóri Microsoft, að kaupa Yahoo fyrir um 45 milljarða bandaríkjadollara, án árangurs.