Microsoft hagnaðist um 4,5 milljarða bandaríkjadollara á þriðja ársfjórðungi samkvæmt árshlutauppgjöri fyrirtækisins. Er það 13% minna en á sama tíma á síðasta ári.

Samdrátturinn skýrist einkum af kaupum fyrirtækisins á símafyrirtækinu Nokia. Tekjur fyrirtækisins jukust hins vegar einnig mikið vegna kaupanna eða um 25% og námu þær 23,2 milljörðum dollara. Er það nokkru meira en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir.

Í uppgjörinu kemur einnig fram að sölutekjur Microsoft af Surface-spjaldtölvunum hafi aukist gífurlega milli ára. Þannig námu þær 908 milljónum dollara á ársfjórðungnum, en það er aukning upp á 127% frá sama tíma í fyrra þegar tekjurnar námu 400 milljónum dollara.