Microsoft í Bandaríkjunum hefur veitt íslenska hugbúnaðarfélaginu TM Software viðurkenningu sem mikilvægasti samstarfsaðili þess í tæknilausnum í almannaöryggi. Magnús Ingi Stefánsson hjá TM Software tók við viðurkenningunni á ráðstefnu um almannaöryggi sem haldin var í höfuðstöðvum Microsoft í Redmond í Bandaríkjunum segir í tilkynningu félagsins.

Viðurkenning TM Software er fyrir upplýsingavefgátt sem félagið hefur þróað fyrir Sameinuðu þjóðirnar í samvinnu við Microsoft. Vefgáttin, sem nefnist oneresponse.info, er notuð til þess að samræma hjálparstarf, neyðaraðstoð og þróunarstarf á vegum Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðila. Lausnin var meðal annars notuð af heilbrigðisyfirvöldum í Mexíkó í kjölfar útbreiðslu H1N1 veirunnar á síðasta ári og við samræmingu á hjálparstarfi vegna jarðskjálfta á Haíti í upphafi ársins segir í tilkynningu.

Gísli Ólafsson, tæknilegur ráðgjafi hjá Microsoft Corporation, sem jafnframt er í alþjóðlegu neyðaraðstoðarteymi Microsoft, segir að TM Software hafi á síðustu árum unnið náið með Microsoft við að aðstoða stjórnvöld og alþjóðastofnanir víða um heim við að samhæfa viðbrögð við náttúruhamförum og farsóttum með aðstoð upplýsingatækni. „TM Software hefur mikla þekkingu í uppsetningu á slíkum samskiptalausnum og vakið athygli fyrir öguð vinnubrögð og fagmennsku í sínum störfum. Það er því mikill heiður að veita TM Software slíka viðurkenningu sem þakklæti fyrir þeirra óeigingjarna starf,“ segir Gísli í tilkynningu.

TM Software er hluti af Nýherja samstæðunni.