Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft hefur samið um kaup á farsímahluta Nokia. Kaupverðið nemur sjö milljörðum dala, jafnvirði rúmra 840 milljarða íslenskra króna.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir að í kjölfarið muni 3.200 starfsmenn Nokia fara yfir til Microsoft. Þar á meðal er hinn kanadíski forstjóri Nokia, Stephen Elop, sem orðaður hefur verið sem hugsanlegur eftirmaður Steve Ballmer, núverandi forstjóri Microsoft. Stutt er síðan Ballmer greindi frá því að hann hyggist stíga frá einhvern tíma á næstu tólf mánuðum.

Með viðskiptunum horfa bæði Nokia og Microsoft til þess að hlaupa uppi hina keppinautana á farsímamarkaðnum, ekki síst suður-kóreska tæknifyrirtækið Samsung og Apple.

Ítarlega er fjallað um Steve Ballmer og störf hans hjá Microsoft í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgasta blaðið hér að ofan  undir liðnum tölublöð.