Microsoft gerir tilboð í LinkedIn fyrir 26,2 milljarða Bandaríkjadali, eða sem nemur 3.234 milljörðum íslenskra króna. Eru þetta stærstu kaup sem Microsoft fyrirtækið hefur gert, en þau eru gerð til að auka vægi fyrirtækisins á samfélagsmiðlum.

LinkedIn er sérstaklega ætlað fyrir atvinnulífið og starfsfólk á vinnumarkaði. Microsoft býður 196 Bandaríkjadali á hlut í LinkedIn sem er 50% ofan á markaðsverð fyrirtækisins á föstudag, en hlutirnir í fyrirtækinu hafa lækkað um 40% á einu ári. Í kjölfar þess að fréttist af kauptilboðinu hækkuðu hlutirnir í LinkedIn í verði um 50%, en hlutir í Microsoft lækkuðu um 4%.

Ben Wood, greinandi hjá CCS Insight, segir að LinkedIn væri verðmæt eign sem væri hægt að samþætta með mörgum af þeim vörum sem Microsoft hafa á boðstólunum, eins og Office pakkanum, Exchange og Outlook póstforritinu. Tekjur LinkedIn hækkuðu um 35% milli ára á fyrsta ársfjórðungi og náðu 861 milljón Bandaríkjadala, en samt var tap fyrirtækisins upp á 99 milljónir dala.

LinkedIn er eini stóri bandaríski samfélagsmiðillinn sem starfar í Kína, þar sem þeir hafa gefið út app sem er sérsniðið að atvinnumarkaðnum þar í landi. Er talið að samfélagsmiðillinn eigi góð tækifæri þar og í Indlandi þó fyrirtækið hafi ekki skilað hagnaði síðustu tvö árin.

Þessi kaup koma í kjölfar annarra svipaðra kaupa, en fyrir tveimur árum keypti fyrirtækið Mojang sem framleiðir Minecraft fyrir 2,5 milljarð Bandaríkjadala, það keypti jafnframt meira en 8 milljarða fyrir Skype árið 2011 og 7,9 milljarða fyrir símaframleiðslu Nokia. Einnig  reyndi það að kaupa Salesforce fyrir 55 milljarða en ekki tókst að kaupa það skýjalausnarfyrirtæki.

Talið er líklegt að lækkun hlutabréfa í tæknigeiranum fylgi frekari samþjöppun í geiranum og eru Twitter og Yahoo talin líkleg að verði keypt upp.