Gengið hefur verið frá kaupum hugbúnaðarrisans Microsoft á Skype fyrir 8,5 milljarða dala. Seljendur var hópur fjárfesta undir foryrstu fyrirtækisins Silver Lake. Að sögn FT eru þetta ein stærstu fyrirtækjakaup Microsoft frá upphafi. Kaupverðið verður greitt í reiðufé en Microsoft situr á um 50 milljörðum dala í reiðufé.

Skype, sem á sínum tíma var stofnað af Svíanum Niklas Zennström og Dananum Janus Friis, hefur rúmlega 170 milljón notendur um heim allan en hugbúnaðurinn var hannaður af þremur eistneskum forriturum. Ebay eignaðist fyrirtækið árið 2005 en tókst ekki að gera sér mat úr því. Á meðal annarra fyrirtækja sem höfðu talist líkleg til þess að eignast Skype voru Google

Forsvarsmenn fyrirtækjanna segja kaupin hafa mikla möguleika í för með sér fyrir bæði fyrirtæki en Skype verður deild innan Microsoft undir forystu Tony Bates, núverandi forstjóra Skype.

Kaupverðið þykir að sögn FT frekar hátt í samanburði við það sem talið var að fengist fyrir Skype við skráningu þess á markað en fyrirtækið tapaði 7 milljónum dala á síðasta ári. Kaupverðið er 32-faldur EBITDA hagnaður Skype á síðasta ári.