Vafri Microsoft, Internet Explorer, missti markaðshlutdeild á seinni helmingi nýliðins árs. Þetta stafar af aukinni samkeppni á markaði þar sem Microsoft hefur lengi verið með yfirgnæfandi hlutdeild, að því er segir í frétt WSJ.

Hlutdeild Internet Explorer minnkaði úr 74% í maí í 68% í desember, hefur WSJ eftir rannsóknarfyrirtækinu Net Applications.

Í fréttinni segir að stöðu Microsoft á vaframarkaði sé ógnað af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna vaxandi notkunar Safari vafra Apple. Í annan stað aukinna vinsælda Firefox vafrans. Í þriðja lagi vegna vafra frá Google, Chrome, sem hafi verið kynntur fyrr á þessu ári.

Hlutdeild Firefox jókst úr 18% í 21% á fyrrnefndu tímabili og hlutdeild Safari jókst úr 6% í 8%. Chrome var settur á markað í september og var kominn með rúmlega 1% hlutdeild í desember.