Eftir þriggja ára baráttu á milli bandaríska hugbúnaðarrisans Microsoft og Evrópusambandsins er útlit fyrir að það sé að fæðast samkomulag. Samkvæmt frétt Financial Times virðist Microsoft ætla að gefa eftir í baráttu sinni gegn fulltrúum ESB sem hafa meðal annars sektað félagið um háar upphæðir vegna þess sem þeir kalla misnotkun á markaðsráðandi stöðu.  Neelie Kroes, yfirmaður samkeppnismála hjá ESB, segist fagna þessari ákvörðun Microsoft en ESB og hugbúnaðarrisinn hafa eldað saman grátt silfur síðan 2004. hefur félagið tapað tveimur dómsmálum vegna þessa og orðið að þola háar dagssektir.

Greint var frá ákvörðuninni á blaðamannafundi í Brussel í dag en í morgun skrifuðu Steve Ballmer, forstjóri Microsoft og Kroes undir samkomulagið. Með því samkomulagi sem þar var undirritað er ljóst að mun auðveldara verður fyrir samkeppnisaðila Microsoft að framleiða forrit sem falla að búnaði Microsoft.

Þess má geta að Microsoft stendur fyrir árlegri notendaráðstefnu sinni í Danmörku núna.