Nokia og Microsoft ætla sér að vinna saman að þróun lausna fyrir snjallsíma sem og þróun kortaþjónustunnar frá Nokia, Nokia Maps. Um þetta var tilkynnt innanhús hjá fyrirtækinu í gær, að því er segir á vefsíðu breska ríkisútvarpsins BBC.

Stephen Elop, sem verið hefur forstjóri Nokia síðan í september í fyrra, var áður millistjórnandi hjá Microsoft og því hæg heimatökin í því að mynda samstarf milli fyrirtækjanna tveggja. Elop sendi minnisblað til stjórnenda fyrirtækisins skömmu eftir að hann tók við því, og sagði fyrirtækið vera í miklum rekstrarvanda.

Hagræðingaraðgerðir eru framundan hjá fyrirtækinu en með samstarfinu við Microsoft vonast Elop til þess að Nokia haldi samkeppnishæfni sinni og sæki fram á við á sama tíma og skorið er niður.