Microsoft og Tölvmiðlun gerðu með sér samning um þróunarsamstarf. Samningurinn, sem er sá stærsti sinnar tegundar sem Microsoft hefur gert við íslenskt hugbúnaðarhús, var kynntur á raðstefnu Tölvumiðlunar í Hörpu á föstudag í síðustu viku.

Fram kemur í tilkynningu að samningurinn hafi verið á annað ár í vinnslu og hefur Tölvumiðlun notið aðstoðar starfsfólks Microsoft Íslandi við þá grunnvinnu sem nauðsynleg var til þess að gera samninginn að veruleika.

Grunnforsenda samningsins var að samstarfið skili hugbúnaði sem verður ríkari af virkni, með framtíðarhagsmuni notenda að leiðarljósi.

Þá kemur fram að í samstarfi Microsoft og Tölvumiðlunar felist miklir möguleikar á útflutningi H3 lausnarinnar sem þróuð er hérlendis, en þess má geta að um árabil hefur launavinnsla Microsoft Íslandi verið framkvæmd í H3 launakerfi Tölvumiðlunar.

Á myndinni sem tekin var í tengslum við kynningu samningsins eru: Viðar Þórðarson, Gissur Ísleifsson, Brynjar Gunnlaugsson, Daði Friðriksson frá Tölvumiðlun og Halldór Jörgensson, Lars Mikaelsson og Eric Heinen frá Microsoft.