Microsoft endaði vikuna sem leið sem verðmætasta fyrirtæki heims með markaðsvirði upp á 851 milljarða á meðan markaðsvirði Apple var 847 milljarðar. Er þetta í fyrsta skipti í 15 ár sem Microsoft nær að endurheimta stöðu sína sem verðmætasta skráða fyrirtæki heims.

Bæði Apple og Microsoft voru búinn að skiptast á fyrsta sætinu alla daga vikunnar en Apple endaði þó alla viðskiptadaga sem það verðmætasta þangað til í gær þegar hlutabréfaverð Microsoft hækkaði um 0,6% og endaði í 100,89 dollurum á hlut á meðan Apple lækkaði um 0,5% og endaði í 178,6 dollurum á hlut.

Hlutabréfaverð Apple hefur lækkað um tæp 25% frá því í október en félagið varð það fyrsta til að rjúfa 1.000 milljaraða dollara markaðsvirðis múrinn í sumar. Lækkunin sem hefur verið meiri en undanfarnar markaðslækkanir skýrast meðal annars af áhyggjum af því að hægja sé á eftirspurn eftir snjallsímum og hættunar á því að tollar verði hækkaðir enn frekar í Bandaríkjunum á vörur framleiddar í Kína að því er fram kemur í frétt BBC .

Hefur lækkunin orðið til þess að markaðsvirði Apple hefur lækkað um rúmlega 200 milljarða dollara.

Árið 2010 tók Apple fram úr Microsoft sem verðmætasta tæknifyrirtæki heims og árið 2011 fór það fram úr Exxon Mobil sem það verðmætasta á markaði og hefur setið í efsta sæti nær óhaggað síðan.