Microsoft reynir nú að koma í veg fyrir að samningur milli Google og Yahoo um auglýsingar gangi fram. Síðarnefndu fyrirtækin tvö gerðu samning sín á milli um auglýsingar á vefsetrum hvors annars, en Microsoft segir samninginn hafa takmarkandi áhrif á samkeppni.

Samkvæmt frétt Reuters telja Microsoft samninginn vera keimlíkan samningum um verðsamráð og að fyrirtækið telji Yahoo og Google hafa sett ákveðið lágmarksverð fyrir auglýsingar sem birtast við ákveðin leitarorð.

Í frétt Reuters er jafnframt vakin athygli á því að fari Microsoft í samkeppnismál verði ákveðin hlutverkaskipti, þar sem fyrirtækið stóð sjálft árum saman í að verjast málsóknum vegna meintrar misnotkunar á markaðsráðandi stöðu. Samið var um málalok í því máli 2002.

Sérfræðingar sem Reuters ræddi við eru ekki á einu máli um hvort samningurinn brýtur gegn samkeppnisreglum.