Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft er nú sagður undirbúa stórfelldar fjöldauppsagnir starfsmanna. Þannig er gert ráð fyrir að allt að 15 þúsund manns verði sagt upp en hjá Microsoft starfa um 90 þúsund manns víðsvegar um heiminn.

Þetta kemur fram á vef Reuters fréttastofunnar.

Fréttastofan segist hafa heimildir fyrir því að starfsmenn Microsoft hafi þegar verið varaðir við að tilkynnt verði um uppsagnir þann fimmtánda þessa mánaðar.

Þetta hefur þó ekki fengist staðfest hjá Microsoft og talsmaður félagsins neitar að tjá sig við Reuters þegar eftir því var leitað.