Microsoft segir kínverska tölvuþrjóta, sem þeir kalla Hafnium, hafa nýtt sér áður óþekkta veikleika í tölvupóstkerfinu Microsoft Exchange til þess að brjótast þar inn og komast yfir gögn. Microsoft segir Hafnium starfa í Kína og njóta stuðnings kínverskra yfirvalda.

Fréttaritari Hvíta hússins, Jen Psaki, hefur lýst miklum áhyggjum af því að fjölmörg fyrirtæki og stofnanir hafi verið útsett fyrir árásinni. Allir sem notist við kerfið - hvort sem það eru opinberir- eða einkaaðilar - þurfi tafarlaust að bregðast við. Í frétt BBC segir að árásin hafi hugsanlega áhrif á tugþúsundir bandarískra fyrirtækja og stofnana.

Microsoft segir þrjótana hafa reynt að stela gögnum frá rannsóknaraðilum smitsjúkdóma, lögfræðistofum, háskólum og öryggisverktökum.

Talsmaður kínverskra stjórnvalda hefur vísað því á bug að Kína stæði að baki árásinni.