Microsoft hefur hafið sölu á Xbox One á kínverskum markaði og hefur innreið sína á markaðinn því á undan helsta samkeppnisaðila sínum, Sony. BBC News greinir frá málinu.

Kínversk stjórnvöld afléttu banni á sölu leikjatölva í landinu í janúar á þessu ári, en bannið hefur staðið yfir í fjórtán ár. Hins vegar munu ýmsir tölvuleikir enn verða bannaðir, svo sem leikurinn Call of Duty.

Fyrstu leikjatölvurnar voru seldar í Shanghai á 84 þúsund krónur stykkið. Einungis tíu leikir eru fáanlegir á kínverska markaðnum til að byrja með, en fyrirtækið segir þó að um 70 leikir fari í sölu á næstunni.

Búist er við því að innreið Microsoft á markaðinn geti haft gríðarleg áhrif á sölutölur fyrirtækisins, sér í lagi þar sem það er á undan helsta samkeppnisaðilanum.