Advania á Íslandi er eitt tuttugu fyrirtækja sem Microsoft hefur sérvalið til þátttöku í uppbyggingu á skýjalausnum. Mun þetta fela í sér náið samstarf á milli Advania og Microsoft í uppsetningu tölvuskýja þar sem fyrirtæki geta hýst og vistað gögn, kerfi og hugbúnað. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Við erum mjög stolt af þessu,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania. „Fyrst og fremst er það mikill heiður fyrir fyrirtækið að vera valið eitt af þessum tuttugu samstarfsaðilum Microsoft í skýjalausnum í heiminum. Við lítum á það sem heiður bæði fyrir okkur hér á Íslandi, og ekki síður fyrir okkur sem norrænt fyrirtæki því þetta gerir okkur kleift að bjóða fyrirtækjum á Norðurlöndunum þessar lausnir.“

Viðurkenningin felur í sér að Advania getur boðið viðskiptavinum sínum aðgengi að Microsoft skýjaþjónustum með öðrum hætti en áður hefur verið mögulegt. Meðal þess sem boðið er upp á í skýjaumhverfi Microsoft er hýsing á tölvukerfum, gagnahýsing og aðgangur að viðskiptahugbúnaði á borð við Microsoft Dynamics NAV bókhaldskerfi og Office 365 hugbúnaðarvöndulinn. Öll gögn, kerfi og hugbúnaður fyrirtækja sem koma til með að nýta þessa þjónustu verða hýst hjá Advania á Íslandi.

„Við munum í fyrsta lagi geta boðið viðskiptavinum okkar upp á áskriftarleið án milligöngu við þriðja aðila sem breytir kostnaði við upplýsingatæknikerfi úr fjárfestingu í mánaðarlegan rekstur. Ef fyrirtæki er til dæmis með marga sumarstarfsmenn þá er hægt fá áskrift að forritum og öðru sem nauðsynlegt er vegna þess, en draga svo aftur saman þegar sumri lýkur,“ segir Gestur.