*

miðvikudagur, 20. október 2021
Erlent 15. maí 2011 11:12

Microsoft veðjar á Skype

Þó hugbúnaðarrisinn Microsoft eigi sand af seðlum munar samt um $8,5 milljarða kaup hans á netsímafyrirtækinu Skype.

Andrés Magnússon
Microsoft ætlar ekki að eftirláta Google og Apple framtíð símamarkaðarins
Gunnhildur Lind Photography

Það kom mörgum á óvart þegar tilkynnt var um kaup hugbúnaðarrisans Microsoft á netsímafyrirtækinu Skype í fyrradag. Ekki síst stöldruðu menn við verðið —8,5 milljarða Bandaríkjadala —en nær öllum ber saman um að Microsoft hafi borgað verulegt yfirverð fyrir Skype.

Steve Ballmer, forstjóri Microsoft, hafði hins vegar svör á reiðum höndum þegar hann var spurður um fyrirætlanir fyrirtækisins með Skype, sem verður rekið áfram með nánast óbreyttu sniði sem sérstök deild innan Microsoft. Hann útlistaði hvernig netsíminn yrði þáttaður með fjölmargri vöru og þjónustu annarri, allt frá Outlook og Exchange til Xbox og Kinect, frá hefðbundnum skrifstofuverkfærum til leikfanga. Og auðvitað einnig Windows Phone, sem Microsoft ætlar að leggja mikið í sölurnar til þess að nái að vera verðugur keppinautur iPhone frá Apple og Android-síma alls konar, sem rætur eiga að rekja til Google.

Það er raunar vel skiljanlegt að Microsoft vilji leggja nokkuð á sig til þess að verða ekki einfaldlega út undan á þeim gróskumikla markaði snjallsíma (og sumpart spjaldtölva), sem iPhone ruddi veginn fyrir og Android ryður sér nú rúms á. Microsoft hefur á undanförnum árum haft orð á sér fyrir að vera þunglamalegt og koma seint til leiks, oftast of seint. Af þeim ástæðum fögnuðu margir þeirri afdráttarlausu stefnumörkun, sem felst í kaupunum á Skype, því verðmiðinn einn segir mikla sögu um þann þunga, sem fylgir máli. Sjálfur minnti Ballmer á að Skype væri ekki aðeins fyrirtæki, heldur hefði það á örskömmum tíma komist í orðabækur sem sagnorð, en meiri vegsauka getur vörumerki tæpast öðlast.

Þetta skiptir Microsoft máli, því þrátt fyrir margvíslega yfirburði hefur risanum í Redmond ekki tekist að hreiðra um sig á neytendamarkaði.

Kettir í sekkjum

Sumir gagnrýnendur hafa bent á að eBay hafi á sínum tíma keypt Skype í sekknum og að innkaupa- og samrunasaga Microsoft sé vægast sagt ekki til þess fallin að auka mönnum bjartsýni á að fyrirtækinu verði kápan úr þessu klæðinu.

Þá minna aðrir á að Google hafi verið komið langleiðina með að kaupa Skype (fyrir mun lægra verð) í fyrra þegar það kippti skyndilega að sér höndum. Fyrir því hafi verið þrjár veigamiklar ástæður. Í fyrsta lagi hafi komið upp verulegar efasemdir um tæknina að baki Skype, öfugt við flestar netsímalausnir aðrar byggi hún á P2P (e. Peer-to-Peer), sem feli í sér að hugbúnaðurinn hagi sér nánast eins og óværa, því það er vélbúnaður notenda sem sér um erfiðið en ekki miðlægir þjónar Skype. Í öðru lagi hafi Google séð fram á 1½ árs stapp við samkeppnisyfirvöld og aðrar eftirlitsstofnanir hér og þar áður en kaupin fengju að ganga eftir. Í þriðja lagi hafi þeim svo vaxið í augum að reka svo stóra deild í annarri heimsálfu með tilheyrandi ferðalögum og ómaki öðru. Allt þetta á ekki síður við um Microsoft en Google.

Til mikils að vinna

Munurinn er hins vegar sá að það er til miklu meira að vinna fyrir Microsoft. Þessi helsti hugbúnaðarrisi heims hefur nefnilega dregist aftur úr á ýmsum sviðum og þar á bæ gerðu menn sér grein fyrir því að ætti fyrirtækið ekki að missa af lestinni í þessum efnum yrði það að grípa til ráða, sem dygðu til þess að skakka leikinn.

Kaupin á Skype geta dugað til þess og raunar erfitt að sjá aðra kosti, því það er ekki hægt að álasa Microsoft fyrir að hafa ekki reynt aðrar leiðir. Árangurinn hefur hins vegar látið á sér standa.

Með Skype ætlar Microsoft að samþætta margvíslega þjónustu, þannig að notendur geti notið og nýtt símsamband, gagnaflutninga, póst, skilaboð, leiki og hvað annað á einum skjá, óháð því hvort menn sitja við tölvu, sjónvarpsskjá eða leikjatölvu, eru með spjaldtölvu eða snjallsíma. Að Windows verði gluggi milli heimilis og vinnu, gluggi sem sómi sér á kaffihúsum og draga megi upp úr vasa hvenær sem er og hvar sem er.

Allt er þetta auðvitað gamalkunnur söngur, framtíðin er núna og allt það. Og tæknilega er ekki verulegur ávinningur í kaupunum fyrir Microsoft, sem ræður yfir margs konar sambærilegri tækni og Skype. Hins vegar kann í kaupunum að felast síðasta góða tækifæri Microsoft til þess að vera með í kapphlaupinu, sem Apple og Google eiga í um framtíð þar sem spjaldtölvur og símar gegna ekki minna hlutverki en hefðbundnar tölvur.

Stikkorð: Microsoft Skype