*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 6. ágúst 2020 18:15

Microsoft vill eignast TikTok að fullu

Microsoft vill eignast starfsemi TikTok í heild sinni, en ekki bara í Bandaríkjunum líkt og fyrstu fregnir gáfu til kynna.

Ritstjórn

Microsoft sækist nú eftir að kaupa TikTok í heild sinni, þar á meðal í Indlandi og Evrópu ólíkt fyrri áformum. Fyrirtækið hefur verið í viðræðum við ByteDance, móðurfélag TikTok, um möguleg kaup þar sem ríkisstjórn Bandaríkjanna hyggst banna smáforritið þar í landi vegna kínverks eignarhalds. Financial Times segir frá.

Microsoft tilkynnti á sunnudaginn síðastliðinn að það ætti í viðræðum við kínverska félagið ByteDance, um að kaupa starfsemi TikTok í Bandaríkjunum, Kanda, Ástralíu og Nýja Sjálandi. Síðan þá hefur Micrososft haft í huga að útvíkka samninginn svo hann nái utan um öll lönd þar sem TikTok er starfrækt. 

TikTok er ekki opið fyrir notendur í Kína heldur er ByteDance með annað smáforrit í Kína sem ber nafnið Douyin en það yrði ekki innifalið í kaupum Microsoft. 

Microsoft ku vilja kaupa TikTok í heild sinni til að losna við erfiðleika í tengslum við aðskilnað bakvinnslu líkt og mannauðsstjórnun og til að tryggja að notendur geti haldið áfram að nota smáforritið þegar þeir ferðast um heiminn, samkvæmt heimildum FT. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á mánudag að það væri örugglega auðveldara að kaupa starfsemina í heild sinni fremur en einungis 30% hennar. Hann bætti þó við að sá sem kaupir TikTok þyrfti að borga „verulegt“ gjald til bandaríska ríkisins. 

Sjá einnig: Trump skyldar ByteDance að selja TikTok

Jafnvel þó samið yrði um starfsemina í heild sinni yrði stórmál að aðskilja TikTok frá ByteDance. Kínverska fyrirtækið hafði verið að vinna að því að aðskilja gögn og algrím milli Kína og annarra landa áður en viðræður við Microsoft hófust, samkvæmt starfsmanni ByteDance. 

Microsoft hafði rætt um að bæta við árs aðlögunartíma í samninginn sem það hefði til að aðskilja TikTok frá móðurfélagi sínu. Þá gæfist einnig tími fyrir samvinnu við bandarísk stjórnvöld vegna gagnasöfnunar smáforritsins og áhyggja af öryggismálum. Tveir heimildarmenn sögðu þann tímaramma vera mjög stuttan og gáfu til kynna að það gæti tekið allt að fimm til átta ár að aðskilja forritið að fullu. 

Indland er stærsti markaður TikTok en um 650 milljónir hafa hlaðið forritinu niður í landinu, samkvæmt gagnaveitunni Sensor Tower. Smáforritið hefur þó verið bannað frá því í lok júní, þegar indversk stjórnvöld settu það á svartan lista ásamt 59 öðrum kínverskum smáforritum sem þau töldu ógna þjóðaröryggi. Kaup Microsoft á TikTok gæti leitt til að banninu verði aflétt. 

Stikkorð: Microsoft TikTok ByteDance