Engu skiptir hvort þeir sem uppvísir eru að því að stinga háum fjárhæðum undan skatti greiði fjárhæðirnar til baka með tilheyrandi álagi þegar tekin er ákvörðun um það hvort mál viðkomandi eru send áfram til sérstaks saksóknara, að sögn Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra. „Við höfum ákveðnar viðmið­unarreglur með það hvaða mál eru send áfram til sér­staks saksóknara. En það hefur ekkert með greiðslur og álag að gera. Mönnum ber að greiða þetta. Það þýðir ekki að ef menn greiði leiðréttingu að þá sé fallið frá mál­inu,“ segir hún. Upphæðin miðast við undanskot skatta upp á sjö milljónir króna sem þýðir í grófum dráttum vantaldar fjármagns­tekjur upp á um 70 milljónir króna.

Var meira en 8-falt yfir viðmiðinu

Skattrannsóknarstjóri hefur vísað ellefu málum, sem teljast til meiri háttar brota á skattalögum, til embættis sérstaks saksóknara. Upphæðirnar hlaupa frá vantöldum tekjum upp á nokkur hundruð milljónir króna og yfir einn millj­arð.

Fréttavefur Viðskiptablaðsins, vb.is, greindi frá því fyrir hádegi í dag að Gunnlaugur Briem , fyrrverandi starfsmaður eignastýringar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, hafi verið ákærður fyrir að vantelja tekjur sínar um tæpar 600 milljónir króna og stungið 60 milljónum króna undan skatti. Þetta er rúmlega 8-falt meira en viðmiðunarmörk skattrannsóknarstjóra hljóða upp á.

Viðskiptin stundaði Gunnlaugur á sama tíma og hann starfaði á eignastýringarsviði Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins, segir viðskipti Gunnlaugs hafa verið í trássi við lög um verklag. Gunnlaugur hætti hjá lífeyrissjóðnum sumarið 2009.

Ítarlega var fjallað um skattaundanskotin sem hafa verið ákærð í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.