Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur auglýst eftir umsögnum um frumvarp til nýrra laga um vátryggingastarfsemi, en drög að frumvarpinu voru birt á vefsíðu ráðuneytisins rétt í þessu.

Í drögunum kemur fram vegna svokallaðrar Solvency II tilskipunar standi til að samræma lagaumhverfi vátryggingafélaga innan EES, bæta neytendavernd og tryggja fjárhagslegan stöðugleika á vátryggingamarkaði.

„Með tilkomu þessara reglna þurfa vátryggingafélög sem taka mikla áhættu eða eru með slaka áhættustýringu að gangast undir hærri gjaldþolskröfur en félög sem taka minni áhættu eða eru með góða áhættustýringu. Með tilskipuninni taka gjaldþolskröfur vátryggingafélaga til fleiri áhættuþátta en nú er og má því ætla að gjaldþolskrafa hækki," segir í drögunum. Þar kemur jafnframt fram að tryggt verði að flóknar útreikningsreglur taki ekki til smærri vátryggingafélaga.

Ný lög miða í meginatriðum að því að í fyrsta lagi verði fjárhagsgrundvöllur vátryggingafélaga reiknaður með eðlilegum um viðeigandi hætti, í öðru lagi að stjórnarhættir verði eðlilegir og heilbrigðir, auk þess sem áhættustýring og -greining verði virk. Í þriðja lagi skuli vátryggingafélög viðhalda virku upplýsingastreymi til stjórnvalda, til dæmis með skýrsluskrifum.

Í drögunum kemur sérstaklega fram að eftirfylgni með nýju lögunum kunni að verða flókin.