Miðaldadagar verða haldnir á Gásum 19.-21. júlí næstkomandi. Þar verður hægt að kaupa alls kyns vörur, handverk og fara í leiki. Miðaldastemning mun ríkja þar sem lykt af ýmiss konar iðnaði, kolagerð og brennisteinsvinnslu mun berast um svæðið.

Hjalti Hafþórsson kemur frá Reykhólum með Vatnsdalsbátinn. Báturinn var smíðaður eftir bát sem var grafinn upp úr kumli í Vatnsdal 1964 með líkamsleifum fimm manns innanborðs og einum hundi. Auk Vatnsdalsbátsins verður skoskur miðaldabátur í fjörunni að Gásum sem er smíðaður eftir lagi skoskrar jullu sem talin er vera frá 14. öld. Kennd verða undirstöðuatriði í bogfimi. Opið er alla dagana frá klukkan 11 til 18.