„Menn sökkva alveg inn í þennan heim. Margir sem koma þarna gera það ár eftir ár. Það er talað um að menn séu Gásaðir, það eru þeir sem geta ekki sleppt úr ári,“ segir Skúli Gautason hjá Akureyrarstofu um Miðaldadaga á Gásum við Eyjafjörð. Þeir verða haldnir nú um helgina, hefjast á föstudag og standa fram á sunnudag. Skúli telur þetta vera tólfta skiptið sem Miðaldadagar eru haldnir á Gásum. Á þriðja þúsund gesta ber að garði að Gásum þegar miðaldadagar eru þar haldnir og gerir Skúli ráð fyrir álíka fjölda í ár. Þátttakendur eru í kringum 100.

Á Gásum var verslunarstaður og önnur tveggja umskipunarhafna á landinu á 13. öld en þaðan var m.a. fluttur út brennisteinn, lýsi og skreið auk fálka sem enn í dag eru með verðmætustu vörum. Þá var á Gásum jafnframt verksmiðja sem hreinasði brennistein sem þangað var fluttur úr námum við Mývatn.

Gerðu vel við sig í mat og drykk

Skúli segir fornleifauppgröft á árunum 2001 til 2006 hafa leitt ýmislegt í ljós. Meðal annars hafi dýrabein og úrgangur leitt í ljós að menn hafi þar gert vel við sig í mat og fleiri stigið þar á landi en frá hinum Norðurlöndunum. Þvert á móti virðist menn hafa komið víðar að, s.s. frá Spáni, Rússlandi og víðar.

„Meginmarkmiðið með Miðaldadögum er að endurskapa lífið eins og það getur hafa verið um þrettán hundruð að Gásum. Þetta er talsvert frábrugðið víkingatímanum enda orðnar miklar samgöngur við önnur lönd. Þetta var stærsta viðskiptahöfn landsins og heilmikið þéttbýli þarna, sennilega það stærsta á sínum tíma,“ segir Skúli.

Daginn áður en Miðaldadagar hefjast, þ.e. á fimmtudag, verður boðið upp á fræðsluferð. Sagt verður frá uppgreftrinum að Gásum og farið í rútuferð fram Hörgárdalinn og skoðað uppgreftrarsvæði þar sem alþjóðlegur hópur fornleifafræðinga hefur kannað tengsl verslunarstaðarins að Gásum við alþýðu manna á Íslandi undanfarin sumur. Bent skal á það að smá spölur er að uppgreftrarstaðnum í Hörgárdal, um 15 mínútna gangur, svo það er gott að vera skóaður til gangs. Dagskráin hefst kl. 20:00 á bílastæðinu að Gásum og reiknað er með að koma aftur um kl.22:30. Þátttaka og rútuferð eru ókeypis og öllum heimil.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

© Aðsend mynd (AÐSEND)