Frumkvöðlaverðlaun Guðfinnu S. Bjarnadóttur voru veitt í annað sinn í gær við hátíðlega athöfn við skólasetningu Háskólans í Reykjavík.

Verkefnið sem hlaut verðlaunin fyrir bestu viðskiptaáætlunina nefnist Mídas fjármálaskóli ehf., en fyrirtækinu er ætlað að skipuleggja og halda fjármálanámskeið fyrir ungmenni á aldrinum 12-18 ára.

Í tilkynningu frá HR kemur fram að hugmyndin er að fyrirtækið hanni og þrói eigið kennsluefni ásamt netleik sem byggður er á fræðandi viðfangsefnum sem tengjast efni hvers námskeiðs. Netleikurinn er sýndarheimur og er markmið hans að kenna ungu fólki að ráðstafa fjármunum á þann hátt að þeir ávaxtist sem best og heildareignir í lokin verði sem mestar.

Á námskeiðunum verða kennd helstu atriði sem ber að hafa í huga í persónulegum fjármálum, hvaða hættur ber að varast, hvernig best er að spara peninga og stuðlað er að því að aðstoða og skapa tilfinningu fyrir verðmætum hjá þátttakendum.

Þátttakendum verður skipt í þrjá hópa eftir aldri: 12-13 ára, 14-16 ára og 17-18 ára. Mismunandi efni verður kennt á hverju námskeiði fyrir sig þannig að nemendur sækja næsta námskeið þegar þeir hafa náð viðeigandi aldri.

Þá kemur fram að hvatinn að verkefninu byggir á reynsluheimi höfunda en þeirra upplifun er að ungmenni hafi litla þekkingu á fjármálum sínum.

Að þeirra mati hafa ungmenni ekki góða tilfinningu fyrir verðmætum þar sem m.a. foreldrar þeirra fjármagna stærsta hluta neyslu þeirra. Lítil sem engin fjármálakennsla á sér stað í grunn- og framhaldsskólum landsins. Bankar, sparisjóðir og önnur fjármálafyrirtæki hafa gert nokkrar tilraunir til þess að beina fjármálafræðslu sérstaklega til ungmenna en höfundar telja að það skref hafi aldrei verið stigið til fulls. Brýn þörf er á að leysa vaxandi vandamál almennings en margir koma sér í fjárhagserfiðleika sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir. Höfundar telja að besta leiðin til þess að leysa vandann sé viðeigandi fræðsla og að hún ætti að hefjast nógu snemma til þess að viðhorf einstaklinga til persónulegra fjármála breytist til framtíðar strax á unglingsaldri.

Í hópnum voru sex nemendur og leggja þau stund á grunnháskólanám í viðskiptafræði, lögfræði, tölvunarfræði og verkfræði. Þau tóku námskeiðið Nýsköpun og stofnun fyrirtækja á vorönn 2008 og skiluðu þessari viðskiptaáætlun sem lokaverkefni í því námskeiði.

Nöfn þeirra eru: Árni Hermann Reynisson, Hrönn Arnardóttir, Jóhann Niels Baldursson, Margeir Ásgeirsson, Rakel Dögg Guðmundsdóttir og Sigurbjörn Ingimundarson.

Í umsögn dómnefndar segir m.a. að viðskiptahugmyndin sé vel ígrunduð og skýrt sé hvaða þörf lausnin muni uppfylla.

„Greiningar eru vandaðar og áætlunin raunhæf og fjárhagsáætlun vel útfærð...viðskiptahugmyndin byggir á reynsluheimi höfunda og felur í sér raunhæfa lausn sem styður vel við ímynd Háskólans í Reykjavík með því að tengja saman samfélagsábyrgð og viðskipti.“

Að stofnun þessa sjóðs standa Bakkavör Group, Háskólinn í Reykjavík og Viðskiptaráð Íslands og er honum ætlað að verðlauna þá nemendur Háskólans í Reykjavík sem leggja fram bestu viðskiptaáætlun í verkefnum innan skólans á ári hverju.

Sjóðurinn ber nafn dr. Guðfinnu S. Bjarnadóttur, fyrrverandi rektors Háskólans í Reykjavík, vegna framlags hennar til frumkvöðlamenntunar innan HR, að því er kemur fram í tilkynningu frá skólanum.