Áhugasamir geta nú keypt sér miða á Ólympíuleikana í London 2012. Sala hófst í dag á heimasíðu ólympíuleikanna. Enn eru 500 dagar þangað til keppni hefst.

Um 6,6 milljónir miða eru til sölu. Skipuleggjendur segja að jafnræðis verði gætt við úthlutun miða. BBC greinir frá í dag.

Hægt er að fá miða á allt frá 20 pundum til 2.012 punda .Miðað við núverandi gengi krónu kostar því miði á bilinu 3700 - 373.000 krónur. Ef eftirspurn eftir ákveðnum atburðum verður meiri en framboð verður dregið um hverjir fá miða.

Þeir sem ætla sér að kaupa miða á Ólympíuleikana í London 2012 þurfa að hafa í huga að ekki er hægt að greiða með Visa-kortum sem renna út fyrir ágúst nk. Í frétt BBC segir að unnið sé að því að leysa vandamálið.